Tuesday, May 25, 2010

Einsog Elli orðaði það svo skemmtilega, þá er svona kríli nokkuð fullkomið home entertainment system. Audio/Visual og meira segja mjög interaktívt. Það fljúga dagarnir þar sem maður gerir ekki svo margt annað en dást að fyndnum svipbrigðum og nýrri færni, strjúka, skipta og rugga. Já og gefa mat.


Það allra skemmtilegasta er að fá bros. Það er ekki auðvelt að ná þessum yndislegum augnablikum á filmu, en mamma náði þessari.

Hilmar Gylfi er upprennandi partýljón. Hann er að minnsta kosti ekki mikið fyrir að vera einn neinstaðar og sér ekki ástæðu til að sofa endalaust. Tja eða sofa lengi yfirhöfuð sérstaklega á daginn og fram yfir miðnætti, svo við fáum að dansa um gólfin. Yfirleitt er hann nokkuð sáttur, svo framarlega sem hann fær að vera í fangi, en suma daga nýtast meðal annars vel góðu ráðin um djúpar hnébeygjur en allra best virkar appelsínuguli ræktarboltinn, sitja með gaurinn á honum og bounca upp og niður. Gulltryggt að hann róast.

Ég er að æfa hann í að sættast við fína MobyWrappið sem fuglabjargið gaf okkur. Hann var þó nokkuð ósáttur við að vera festur þarna til að byrja með, rumdi og ískraði í honum og hann gerði sitt besta til að spyrna sér út með höndum og fótum. (í takt við að hann er svo sperrtur og þykist ekki vera ungabarn) Furðu sterkur eiginlega. Músin lætur í sér heyra þegar þarf. Öskraði af óánægju þangað til ég hoppaði smá með hann svo varð hann hissa og róaðist. Þá kúrði hann í kúlu og steinsvaf þar meðan ég gat bæði borðað og bloggað... með báðum höndum.

Thursday, May 20, 2010

Brosið

Eins ótrúlega klisjukennt og það er nú, eins skelfilega og það hljómar eins og gömul, kínversk loftkökuspeki, þá er fátt jafn ánægjulegt og upplífgandi eins og að sjá barnið þitt brosa.
Hvort sem um er að ræða eitthvert magakitl, eða litli gaurinn sé í raun að herma eftir foreldrunum – eða hvort barninu sé bara í raun og veru skemmt (ég geri mér grein fyrir þroska þriggja vikna barns, ég er að telja upp fræðilegu tilfellin) – þá hlýnar manni bara öllum, og maður kætist með, þegar litli munnurinn beyglast örlítið upp á við, hvort heldur sé til hægri eða vinstri, svo ekki sé talað um þegar hann opnar munninn upp á gátt, skríkjandi kátur og glaður (þó kannski kátínuískrið fylgi ekki endilega með, ekki ennþá) svo skín í... tja, fagurbleikt tannholdið.
Það er bara dálítið yndislegt.

Friday, May 14, 2010

First time eitt og annað

Í fyrradag fengum við heimsókn frá sygeplejersken. Dálítið seint, þar sem Hilmar Gylfi var orðinn alveg heilla tólf daga gamall... Ég var hálf móðguð út í hana fyrirfram, en hún hafði verið á námskeiði í síðustu viku og gleymdi okkur svo næstum í dag. Við höfðum mikið fyrir að vera tilbúin, hrein og södd um morguninn en ekkert bólaði á henni. Náði loks í einhvern eftir hádegið sem hafði upp á henni, en þá hafði hún skrifað mig í vitlausa bók (?) var ógurlega flov yfir þessu öllu og bauðst til að koma um eftirmiðdaginn í staðinn.

Þrátt fyrir okkur hafi fundist við dálítið afskipt, og hverfa í kerfið þá var hún hin ágætasta. Kona sem talaði á innsoginu, í mýkra lagi, með kolsvart hár og eyliner og ógurlega fær í að koma með ráð og kjafta í einu. Hún var imponeruð yfir þessu stóra barni (fiskiolían sko, einsog flestar ljósmæður töluðu um þegar talið barst að stærð íslenskra barna) í skærgrænum froskagallanum, og kippti sér ekkert upp við það að hann öskraði einsog við pyntingu þegar hann var færður úr öllum fötunum til að hægt væri að skoða hann allan. Því fer fjarri að honum finnist það hugguleg stund að sprikla fatalaus. En það er nú eðlilegt. Hún spjallaði bara áfram og gerði sín einföldu próf, meðan foreldrarnir áttu erfitt með að einbeita sér enda langt frá því orðin ónæm fyrir grátinum. En drengurinn heill, hraustur og sprækur, og hefur bæði náð fæðingarþyngd sinni og 200 grömm betur svo er núna 4300 grömm. Greinilega dugað honum að vilja vera í fangi og borða á hálftíma fresti frá því hann fæddist, þó móðirin sé dálítið þreytt. (ááái og aum) Hilmar varð hinsvegar svo úrvinda af öskrunum að hann steinsofnaði og svaf afganginn af heimsókninni. 

Ég sagði já takk við að vera með í mæðragrúppu einsog öllum hér býðst svo einhverntíman á vordögunum fæ ég bréf um að mæta í kaffiboð með konum úr hverfinu sem hafa eignast barn á nokkurra mánaða tímabili. Spennandi að vita hvort maður hitti á að kynnst skemmtilegum dömum þar. Hjúkkan sagði reyndar að það væri önnur íslensk stelpa frá Trørød kolleginu sem yrði líklega með svo það er fyndin tilviljun. 

Það hefði verið ljómandi að ná mynd af þeim stóra viðburði í lífi drengsins að hann var baðaður um daginn. En þar sem það leið næstum yfir hann af gráti og öskrum yfir þessari ólýsanlega grimmdarlegu meðferð að vera dýft í vatn allsberum þá hreinlega náðum við því ekki. Það var ekki orka í meira en rétt að skola af honum og vefja svo inn í hlýtt handklæði til að reyna sefa ekkasogin og vona að hann beri ekki varanleg ör á sálinni og kala til foreldranna. 

Hinsvegar var hann duglegur í fyrsta skipti sem við fórum með hann í bæinn, og þrátt fyrir hávær byrjunarmótmæli svaf hann sinn lengsta lúr ever í vagninum og kippti sér ekki mikið upp við strætóferðir, heyrnarpróf á spítalanum, stutta heimsókn á netfilmmakers opnun og þar líka stopp á kaffihúsi þar sem við hittum Ella, Linus og Önnu Kristínu sem komu við og gistu svo hjá okkur á leið heim til Sverige frá Malaga. Hnykill stóð undir væntingum og var í fína prjónasamfestingnum frá Hrefnu frænku auk peysu, ullarsokka og með prjónateppi. Gríðarlega mikil ást og heimagert vafið um drenginn. 

Nú eru þau öll farin heim, tja mamma reyndar í biðstöðu í borginni hjá Oddrúnu meðan beðið er eftir nánari fréttum af ferðum öskunnar um evrópu. 
Ekki meiri mömmumatur og félagskapur í daglegt kaffiboð fyrir okkur. Einhverskonar hversdagsleiki hefst býst ég við, þó rútínan mótist ennþá bara eftir honum Hilmari Gylfa. 

Sunday, May 9, 2010

Myndir af guttanum

Saturday, May 8, 2010

Velkomst

Nýji heimsborgarinn er orðinn viku og tveggja daga gamall. Yndislegt eintak, auðvitað fallegastur og bestastur í allri veröldinni, það er gefið. Hann kom í heiminn 29.04.10 klukkan 17:17 eftir þriggja daga ferli. Hann var 4110 grömm, sem er víst um 16 og hálf mörk og 54 cm á lengd.

Yndisleg ljúf lítil vera með stór augu, vænar mjúkar kinnar og langa putta. Fyrsta hálfa sólarhringinn var hann athugull og einbeittur og grandskoðaði foreldra sína og heyrðist aldrei grátur. Það breyttist svolítið þegar hann varð svangur. Mikið var á hann lagt fyrstu vikuna, að koma í heiminn þetta stór og kröftugur en án varaforða eftir langa kúludvöl og erfiða fæðingu - og eiga svo að bíða í nokkra daga áður en mjólk var í boði. Það voru langir dagar. En mikið var það yndisleg tilfinning fyrir alla í fjölskyldunni þegar hann fór að sofa lengur en nokkrar mínútur og jafnvel liggja vakandi saddur og sáttur útaf og sjarmera okkur upp úr skónum. Annars greinilega félagslynd lítil vera, sem kann mun betur við að vera í fangi en að vera skilinn eftir inni í herbergi. Eitthvað er maginn að angra hann líka, en almennt er hann samt góður.

Hann kannst ekki við það sjálfur að vera viku gamall, né að talað sé um að ungabörn sofi oftast í 12-20 tíma á sólarhring. Hann vill bara láta halda á sér uppréttum, þykist halda haus og fer allra best um hann með höfuðið reigt afturábak þar sem hann horfir spekingslega í kringum sig. Það er greinilegt að hann lá með ennið niður í kúlunni og því vanur þeirri stellingu. Best auðvitað ef sá sem heldur á honum dansar um með djúpum hnébeygjum, það er lúxus. Hann brosir líka stóru brosi og er ofur sætur og fær með snuðið sem prófað var í einhverri törninni þar sem ekkert dugði. Spurning hvort hann sé ekki farinn að tala líka, sögum fer þó ekki saman um hvort það hljómaði sem mamma eða amma. Eða hvort hendin var fyrir munninum.

Unginn litli sýnir líka ljúfmannlega takta, frá fyrstu stundu ískraði í honum einsog lítilli mús þegar honum misbauð eitthvað - og skrúfar ekki frá alvöru öskrinu fyrr en honum þykir ástæða til og er virkilega misboðið einsog þegar maturinn kemur ekki þrátt fyrir ískrið eða hann er rifinn úr öllu eftir að hafa pissað yfir sig. Þá heyrist hátt, og hann er jafnvel lengi að jafna sig með ekkasogum eftir slíka meðferð.

Litla fjölskyldan hefur það gott, við erum lúin og tökum það rólega heimavið en hamingjusöm og njótum þess að kynnast honum og sjá hvað hann breytist hreinlega dag frá degi. Við erum svo ótrúlega heppin að mamma mín er í heimsókn, og alveg yndislegt að hafa ömmuna nærri. Þó félagsskapurinn sé aðallatriðið þá skemmir ekki fyrir að fá hjálp, oftar heitan mat og auka hendur til að halda á unganum.

Unginn á líka nafn og heitir Hilmar Gylfi.