Monday, March 28, 2011

datt!!

Lasinn


Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera svona lítill og viðkvæmur. Hilmar hefur náð sér í flestar þær pestir sem honum hafa staðið til boða undanfarnar vikur. Við segjum að þetta sé leikskólinn, en tilfellið er að hann varð fyrst svona veikur nokkrum dögum áður en hann byrjaði á leikskólanum: nóttina eftir að ég varð þrítugur, nánar til tekið.

Nú er hann með augnsýkingu sem kemur í kjölfar langvarandi kvefpestar. Á jákvæðu nótunum þá náði hann heilli viku á leikskólanum (í síðustu viku) og fékk að láta á það reyna að sofa fyrri lúrinn sinn þar upp frá, og vakna upp við pedagóga og pedagógmeðhjálpara þar, í stað þess að koma beint í fangið á mömmu og pabba.

Það ferli gekk hinsvegar allt vonum framar, og þó við foreldrarnir höfum séð örlítinn mun á honum, þá virtist hann nokkuð sáttur við að láta leikskólakennara og fóstrur á Grænubauninni sjá alfarið um sig í þessa tíma fyrir hádegi. Auk þess hafði hann víst líka gaman af hinum börnunum og er rétt að læra að leika sér við þau.

Barn eltir ryksugu yfir stofugólf með lestarteina á milli tannanna


Hér er Hilmar orðinn rólegri yfir hávaðaröskun ryksugunnar. Það er ekki langt síðan hann brást ókvæða við þegar hún fór í gang, hvort heldur sem hann kveikti á henni sjálfur eða einhver annar gerði það fyrir hann, og skreið hratt í burtu.
Í dag eltir hann ryksuguna, og hann gerir að meira og minna gangandi.

Það er bæði skemmtilegt og hálfskelfilegt að fylgast með hvað þetta gerist hratt. Hann hefur verið veikur ansi mikið það sem af er þessum mánuði, og það hefur kannski örlítið brugðið hulu fyrir augu okkar foreldranna yfir því hvað hann hefur tekið miklum framförum. Hvort sem að er þessi heila vika á leikskólanum eða bara tímabilið, þá hefur svo margt gerst undanfarið að maður er hættur að hafa tölu á því, og kannski farinn að taka því sem full sjálfsögðu á stundum.
Orðin sem bætast í orðaforðann — sem öll eru hálf-hálf ennþá; „ammammammamamamamamm“ verður þannig snarlega að „mamma“ í huga foreldranna, „mmmabbappa“ að pabba, og „daah-tah“ getur bæði merkt „pabbi“ og „datt“, „þetta“ eða „Odda“, allt eftir þeim aðstæðum sem „orðin“ fá að falla — skrefin sem bætast við göngutúranna og nýr og bættur skilningur á umhverfi, aðstæðum og virkni hluta. Allt er þetta eitthvað sem auðveldlega skreppur saman við þann fjölda nýrra hluta sem bætist við á hverjum degi, svo eitt fellur í skugga annars uns allt rennur saman í eitt yfirheiti, regnhlífarhugtak: framfarir.
Og það er nákvæmlega það sem við fáum að upplifa í hans fari, örlítið meira með hverjum deginum sem líður: Framfarir.

Sunday, March 27, 2011

?

Published with Blogger-droid v1.6.7

Tuesday, March 1, 2011

tætir og kætir

Published with Blogger-droid v1.6.7

Af stað sagði ég...

Þetta eru ekki fyrstu skref barnsins, hann hefur verið að færa sig svolítið upp á skaftið undanfarið. Ég held hinsvegar að ég ljúgi engu þegar ég fullyrði að þetta sé það fyrsta sem náist á vídeó. Hann varð annars 10 mánaða í dag... eða gær. Það er erfitt að telja mánaðarafmæli í febrúar þegar maður er fæddur 29. apríl.
Published with Blogger-droid v1.6.7