Saturday, April 30, 2011

Heilsárs!



Það er eitthvað hálfótrúlegt að heilt ár sé liðið frá því að þessi litli gaur spratt í heiminn, krumpaður með titrandi vör. Í gær héldum við veislu honum til heiðurs, og á einhvern undarlegan máta var næstum eins og hann væri meðvitaður um að dagurinn væri helgaður honum, að allt þetta fólk væri í heimsókn til að fagna honum; drengurinn, sem allajafna rífur allt sem ekki er bundið fast við höfuðið á honum samstundis af sér, leyfði þessari glæsilegu flaueliskórónu að sitja tímunum saman, svo áreynslulaust var það raunar að fólk hafði orð á því. Sem er skemmtilegt því við vitum vel að þetta er ekki tilfellið aðra daga.
En hann hljóp og skemmti sér, hamingjusamari en ský í buxum. Kátínan yfir öllu nýja dótinu fór ekki framhjá neinum, og litli kúturinn sem okkur finnst vera nýbúinn að átta sig á því að það virkar ekki að ýta sér bara afturábak (því þá endar maður bara fastur úti í horni) hoppaði og skoppaði um garðinn og elti börnin um í leikjum og gleði.
Þetta var góður dagur og margir góðir gestir.

Það var þó öllu leiðinlegra að föður afmælisbarnsins skuli hafa sést yfir allar myndavélarnar á heimilinu — sem þó eru nokkrar — á jafn afdrifaríkan hátt og raun bar vitni. Einhverjar myndir voru teknar, en alls ekki nóg. Þetta myndskeið er frá morgni afmælisdagsins sjálfs, föstudagsins 29. apríl. Gjöfin er frá ömmu og afa í Markholti.