Saturday, October 30, 2010

Að komast á skrið


Hann varð sex mánaða í gær og ég tók eftir því í morgun að Hilmar var byrjaður að toga sig áfram. Hingað til hefur hann látið sér nægja að ýta sér afturábak. Að sama skapi er hann ekki langt frá því að fatta þetta með fæturnar.
Núna snýst hann eins og þyrluspaði, ýtir sér afturábak og togar sig áfram. Það hefur líklega háð honum helst á þessari stundu sem vídjóið var tekið upp, að sokkabuxurnar sem hann var í hengu eins og gallabuxur skoppara frá miðjum tíunda áratug tuttugustu aldarinnar, og griptappar úr gúmmí sem eiga að vera á hnjánum, voru staðsettir á miðjum sköflungi barnsins, og voru því engan veginn starfi sínu vaxnir.

Wednesday, October 27, 2010

Svefngalsi


Drengurinn er á þvílíkum yfirsnúningi. Hann skríkir af kæti og hlær að látunum í mömmu sinni líkt og enginn sé morgundagurinn. Sambærilegt atvik átti sér svo stað í gær þegar hann hló að kjánalegum óhljóðagangi í mér — það náðist á vídjó, en full seint, svo helsta gusan var gengin yfir.
En á föstudaginn verður hann sex mánaða, og gengur í gegnum heilmikið vaxta og þroskatímabil þessa dagana. Við eigum raunar enn eftir að fara með hann í fimm mánaða skoðun, en hann vex og dafnar svo við höfum ekki miklar áhyggjur af því. Þar að auki fór hann mánuði of seint í þriggja mánaða skoðun, svo það er kannski bara eðlileg framvinda að fresta þessari um sambærilegan tíma. Í það minnsta er hann búinn að fá tíma hjá lækni núna á föstudaginn.
Undanfarið hefur hann verið að sýna einhverja tilburði við skrið. Hann hefur þannig skellt sér í stöðu sem minnir helst á armbeygjur, og reist sig þaðan upp á fjóra fætur. Í dag varð ég (að minnsta kosti, veit ekki um Ástu — hún hefur sjálfsagt orðið vitni að þessu áður) þess vitni að hann fór úr þessari armbeygjupósu og skellti sér á fjóra fætur. Svo slengdi hann annarri hendinni fram og dró sig aðeins áfram. Hann tók sumsé eitt skrið, ef svo má að orði komast, þó stutt hafi verið. En ég hef fleygt því fram að miðað við aðfarir undanfarinna daga verði hann farinn að skríða áður en Ösp kemur til okkar eftir helgi. Og ég er ekki viss um að það sé svo fjarri lagi.

En það er ógurlega gaman að fylgjast með honum vaxa og mannast, því hann breytist alveg ótrúlega hratt og ótrúlega mikið. Það eru margir sammála um að hann sé farinn að líkjast mömmu sinni talsvert meira en hann gerði, og satt að segja koma ákveðin augnablik þar sem hann er alveg eins og hún. En eitthvað er það í augnsvipnum sem ég eigna mér, og sérstaklega þegar hann brosir breitt og hlær dátt. Þá myndast litlar hrukkur við augnkrókana sem ég vil meina að séu úr minni genasúpu.

Hvað sem því líður, þá höfum við foreldrar hans ógnar gaman af því hve hratt honum fer fram og hve mikið gerist í hverri viku. Þetta er augljóslega okkar fyrsta barn, ég geri mér fulla grein fyrir því, en það er ekki hægt að horfa hjá því að við erum líka heppin að geta tekið bæði þátt í þessu. Þetta er góður tími til að vera í húmanísku framhaldsnámi sem krefst ekki allt of mikillar viðveru. Ég get þá leyft mér að koma heim þegar hann er hress og sprækur, og eyða frekar kvöldum sem hann sefur (nú eða seinnipartslúrunum hans) við lestur. Það gefur mér satt að segja mjög mikið, og ég get náttúrulega ekki annað en vonað (þó ég sé þess handviss) að það gefi honum að sama skapi mikið að hafa báða foreldra sína hjá sér á þessum aldri. Mér finnst líka eins og hann sé aðeins farinn að greina okkur betur í sundur, þekkja inn á okkur og hugsa um okkur sem eitthvað meira en hlýja fólkið og manneskjuna sem gefur honum að borða. Hann ræður sér allavega ekki fyrir kæti þegar hann ég kem heim eftir að hafa verið einhversstaðar frá, og sömu sögu er að segja þegar hann sér mömmu sína þegar hann vaknar.

Vatnssopi


„Nei, ég nenni sko ekki að vera að sötra úr einhverju smábarnaglasi.“

Monday, October 11, 2010

Matartími 2

Matartími

Sunday, October 10, 2010

Matartími

Gulrætur