Thursday, September 30, 2010

Stand-up


Í gær var snáðinn 5 mánaða. Í dag stóð hann svo upp...

Bólgnir gómar angra hann og orsaka stutta lúra og slatta af almennri gremju og ergelsi svo við tvö eru mikið í því að finna í sífellu upp á nýjum hlutum að dunda á daginn. Stutt á milli hlýrra brosa, faðmlaga og góðlátlega rifið í hárið yfir í skræki, grettur og klór. Eftir átök við bleyjuskipti (hann vill bara sitja uppréttur síðan hann áttaði sig á að það er hægt og stundum bálreiður að vera lagður útaf) leyfði ég honum svo að sitja í rúminu sínu meðan ég braut saman föt. Hann var voða sáttur við þetta nýja leikvenue og útsýnið. Teygði mig svo í myndavélina og ætlaði að smella af honum að tæta og reyna að naga rúmið sitt.

Átti ekki alveg von á að hann myndi bara gera sér lítið fyrir og tosa sig á fætur. Skelfing var hann góður með sig.... Montrass. 

(En það teygist líka ótrúlega úr honum þessa dagana, og búin að pakka niður öðrum bunka af litlum fötum og skyndilega nauðsynlegt að kaupa nokkrar flíkur í viðbót. Orðið fullkalt fyrir kvartermar & kvartbuxur...)

Saturday, September 11, 2010

Ég hlæ þegar ég er kátur


Eins og svo oft vill vera með þessar myndbandsupptökur, þá er augnablikið nokkuð löngu hafið. Það er þegar kátínan stendur sem hæst sem okkur dettur í hug að grípa til vélarinnar og festa það í runur af einum og engu. En hann er glaður, kátur og hress, hann Hilmar, þó svefngalsinn hafi sjálfsagt eitthvað um þetta að segja. Eftir löng ferðalög heim úr sundi og lítið um svefn í dag, þá grípur hann þessi ógnarkátína þegar mamman hamast aðeins í honum.

Og sundið, sundið. Hann hló og skellihló. Þótti afskaplega gaman að sprikla og busla, og brosti allan hringinn þegar mamma hans dýfði eyrunum á kaf svo allt hljóðið varð fjarlægt og þungt. Mér datt helst í hug að hann væri að upplifa sína fyrstu nostalgíu — nokkuð sem ég hef rogast talsvert með í gegnum þessi fyrstu skref hans. En hann kunni vel við sig í vatninu og skemmti sér eins og kálfur á túni eftir snjóþungan vetur.

Heyri grasið vaxa


Hann er orðinn nægilega gamall til að upplifa heiminn aðeins meira, og hann gerir það af mestu ákefð. Það er ekki laust við að hann sé forvitinn og finni hjá sér þörf til að pota í, grípa í, rífa í og tæta, og allra helst, troða upp í sig, allt sem hann kemst í tæri við.
Hérna fór Ásta með hann út og lagði hann í grasið í fyrsta sinn.

Fýlubomba með rembing


Það er ekki alltaf kátínunni fyrir að fara, þó hann sé glaðlyndur krakki. Þessa dagana ergir hann einhver kláði í gómnum, og heimsóknarhjúkkan tjáði Ástu að þetta væru vissulega tennurnar að brjóta sér leið, en það þýddi þó ekki að hann væri byrjaður að taka þær, heldur þyrftu þær að brjóta sér leið í gegnum nokkrar himnur (eða skilrúm, svo maður þýði beint úr dönsku), og í hvert skipti sem slíkar himnur væru rofnar, fyndi hann fyrir óþægindum og yrði pirraður.
Við erum hinsvegar nokkuð viss um að lítill hnúður í neðri gómi sé tönn sem er komin ansi nálægt yfirborðinu.

Markús í matinn


Fíllinn Markús var gjöf frá Ísafoldu Ingibjörgu, Bjarnadóttur og Sigrúnar. Hann hefur verið í töluverðu uppáhaldi hjá Hilmari, en þó aðalega til átu. Nú þegar hann er farinn að rúlla sér á magann er hægt að leggja mikið á sig til að japla aðeins á Markúsi.

Þumal, bara einhvern þumal


Hann er vissulega búinn að finna þumalinn á sjálfum sér, troða honum upp í sig og sjúga af áfergju. En hann gerir það ekkert mjög oft eða mikið, ekki frekar en hann hafi þolinmæði í snuðið nema takmarkaða stund. Það sem hann kann hinsvegar allra best við þessa dagana, er að troða upp í sig fingrum, hnjám eða öxlum allra annarra. Og það er ekki frá því að tannlaus gómur geti bitið ansi fast!